MONUMENTS

Decaying farms and other man-made things in the landscape northern Iceland. Some waiting to be renovated, some to be removed and some are slowly becoming part of the nature.
………………….

MINNISVARÐAR

Eyðibýli og yfirgefin hús sem eru smám saman að grotna niður eru á vissan hátt dapurleg mannvirki. Ryð, fúi, brotnir gluggar og lausar bárujárnsplötur hafa tekið við af fjölbreytilegu mannlífi, góðu eða slæmu. Bílar sem skildir hafa verið eftir úti í náttúrunni til þess eins að ryðga niður eru mörgum þyrnir í augum og tákn um sóðalega umgengni. Allt eru þetta minnisvarðar um liðna tíma og í sumum tilfellum tákn um hnignun hinna dreifðu byggða.

Þessir hlutir geta verið heillandi þrátt fyrir niðurníðsluna. Eyðibýlin kalla fram margskonar hugrenningar og öll eiga þau sína sögu. Hringver á Tjörnesi sem fór í eyði árið 1975 þegar systurnar tvær sem þar bjuggu fóru á dvalarheimilið á Húsavík er fallegt hús á fögrum stað. Þær systur notuðu ekki vélar eða nútímatæki við bústörfin, allt var unnið með gamla laginu. Bítlarnir, og þá sérlega Yesterday, voru í miklu uppáhaldi hjá annarri þeirra. Síðasti íbúinn á Hinriksmýri á Árskógssandi var einbúi úr Þorvaldsdal, sem flutti þangað þegar vistin í torfkofanum þar reyndist honum of erfið.

Gömul og ryðguð ökutæki geta ekki síður verið sjarmerandi. Ekki síst gamlir strætóar, flutningabílar og jeppar. Volvo vagnarnir sem SVR tók í notkun þegar skipt var yfir í hægri umferð árið 1968 og grænu Benzarnir sem Gunnar og Ebeneser á Ísafirði gerðu út, eru mér minnistæðir af götum Reykavíkur á bernskuárunum, og það var sérstakt að rekast á þá í norðlenskum dölum, nú tæpri hálfri öld síðar.